Menntaskólinn í Reykjavík

Fréttir

Athöfn á Hátíðasal 1. desember

Að frumkvæði stjórnar Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík var haldin hátíðleg athöfn á Hátíðasal. Athöfnin hófst með söng kórs Menntaskólans í Reykjavík undir stjórn Kára Þ. Kárasonar kórstjóra. Benedikt Jóhannesson formaður stjórnar Hollvinafélagsins flutti ávarp og afhenti rektor af þessu tilefni styrk að upphæð einni milljón króna sem renna á til ferðasjóðs Menntaskólans til styrktar menningarferðum á vegum skólans.

Í þakkarávarpi rektors kom fram að Hollvinafélag Menntaskólans í Reykjavík var stofnað fyrir tveimur árum, 1. desember 2013. Stuðningur Hollvinafélagsins við skólann er afar mikils virði. Í vor stóð Hollvinafélagið fyrir söfnun til þess að endurnýja tölvuver skólans í Elísabetarhúsi og útbúa það nýjustu og bestu tölvum sem völ var á fyrir söfnunarfé upp á 3,5 milljónir króna. Stuðningur og tryggð afmælisstúdenta á undanförnum árum og Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík eru skólanum ómetanleg og gera skólanum kleift að bjóða nemendum upp á aðstæður til náms eins og best verður á kosið.

Afmælisstúdentar hafa ávallt sýnt sínum gamla skóla mikla tryggð og á síðustu tveimur áratugum hafa afmælisstúdentar tekið höndum saman til að styrkja afar brýn verkefni skólans sem annars hefði ekki verið unnt að framkvæma með því rekstrarframlagi sem skólinn fær frá ríkisvaldinu, t.d. söfnun afmælisstúdenta á árunum 2002-2012 við endurgerð Skólaselsins í Hveragerði og til tækjakaupa í raungreinastofum.

Í haust hefur stjórn Hollvinafélagsins beint sjónum sínum að alþjóðlegu starfi skólans en á undanförnum árum hefur þátttaka nemenda skólans í alþjóðlegu samstarfi aukist umtalsvert. Þetta samstarf hefur m.a. falist í að bjóða nemendum upp á menningarferðir af ýmsum toga. Það er samdóma álit þeirra sem hafa tekið þátt í skipulagningu slíkra ferða að þær hafi tekist afar vel. Þessar ferðir voru upphaflega skiptinámsferðir á vegum ýmissa samtaka m.a. Lingua á vegum Evrópusambandsins. Á undanförnum 15 árum hefur verið farið með nemendur fornmáladeilda í 5. og 6. bekk annað hvert ár til Rómar. Síðustu tvö ár hefur verið bætt við annarri ferð fyrir nemendur á málabraut og þeim boðið að taka þátt í ferð til Bretlands árið sem ekki er farið til Rómar. Í þeirri ferð fara enskukennarar með nemendur á málabrautum 5. og 6. bekkjar í menningarferð til London.

Í fyrravetur hlaut skólinn styrk frá Erasmus+ menntaáætluninni til þátttöku í alþjóðlegu verkefni ásamt skólum frá sjö öðrum Evrópuþjóðum. Jafnframt hafa bæst við ferðir með nemendur í öðru tungumálanámi en ensku og latínu. Undanfarin ár hafa þýskukennarar farið með nemendur sem stunda þýskunám í 5. bekk í námsferðir á sögufrægar slóðir Berlínar, frönskukennarar hafa farið með nemendur til Frakklands og í fyrra var farið með nemendur í Tolkien-vali og enskuvali í menningarferð til London og Oxford. Í vetur er verið að skipuleggja aðra ferð fyrir nemendur í Tolkien-vali. Bætt hefur verið við ferð til London fyrir nemendur í myndmennt og í undirbúningi er utanlandsferð til Spánar með nemendur í spænskuvali.

Til að gera Menntaskólanum í Reykjavík kleift að bjóða upp á þessar menningarferðir hafa afmælisstúdentar á undanförnum árum styrkt skólann. Þannig styrktu 25 ára stúdentar í vor skólann með myndarlegu framlagi til þessa verkefnis og Hollvinafélagið styrkir þetta starf af miklum myndarskap með milljón króna styrk. Að lokum þakkaði rektor Hollvinafélaginu fyrir rausnarlega gjöf og ræktarsemi við hann. Stuðningur Hollvinafélagsins er mikils metinn og er skólanum afar mikils virði.