mr.is >> Fréttir >> Minningarorð um Sigurð Pálsson
Minningarorð um Sigurð Pálsson
Mánudagur, 02. október 2017 16:49

Sigurður fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967 og stundaði frönskunám í Toulouse og París. Þá nam hann leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk einnig námi í kvikmyndaleikstjórn.

Ritstörf og þýðingar einkenndu mikið ævistarf hans. Sigurður hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar árið 2007 og forseti Íslands sæmdi hann fálkaorðunni á þessu ári. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2016 og Rithöfundasamband Íslands veitti Sigurði Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Ljóð muna rödd.

Við skólaslit Menntaskólans í Reykjavík vorið 2017 flutti hann eftirminnilega ræðu sem ræðumaður 50 ára stúdenta. Það var sérstakur heiður fyrir viðstadda að fá að hlýða á ræðu hans. Hann lagði út frá Dylan, tímanum, byggingalist og tíðarandanum fyrir 50 árum þegar samstúdentar hans útskrifuðust úr skólanum. Hann ræddi um Gamla skóla og rifjaði upp þegar Herranótt flutti leikrit hans á 140 ára afmæli skólans, Húsið á hæðinni eða hring eftir hring. Aðalpersónan er húsið og svokallaðir húsandar sem búa þar í veggjunum en síðari hluti titilsins, hring eftir hring, vísar til þess að það var eins og kynslóð fram af kynslóð væri með svipuð mál ofarlega á baugi. Hann ræddi um mikilvægi þess að fá að dvelja í húsi sem ætti sér jafn langa sögu og Menntaskólinn. Mér þótti sérstaklega eftirminnilegt hvernig hann lagði út frá dvöl nemenda í Gamla skóla: „Aðgangur að fortíðinni getur verið og á að vera stökkpallur inn í framtíðina. Sá sem hefur lifandi aðgang að fortíðinni er betur til þess fallinn að ráða við framtíðina.“

Blessuð sé minning Sigurðar Pálssonar. Nemendur og starfsfólk Menntaskólans í Reykjavík senda syninum Jóhannesi Páli Sigurðarsyni og eiginkonunni Kristínu Jóhannesdóttur innilegar samúðarkveðjur.

Yngvi Pétursson

 
Last month Desember 2018 Next month
    S M Þ M F F L
week 48                         1
week 49 2 3 4 5 6 7 8
week 50 9 10 11 12 13 14 15
week 51 16 17 18 19 20 21 22
week 52 23 24 25 26 27 28 29
week 1 30 31