Menntaskólinn í Reykjavík

Sumarnámskeið - Algebrubrú 

Sumir byrja í framhaldsskóla og skilja ekki af hverju þeir eru ekki lengur góðir í stærðfræði; sumir fá þessa tilfinningu í efri bekkjum grunnskóla. Ástæðan gæti verið að nokkuð vanti upp á algebruna. Reynslan sýnir að traustur grunnur í algebru er lykillinn að farsælu námi í stærðfræði og tengdum greinum.

Nemendur sem eru sterkir í algebru eru fljótir að tileinka sér nýja stærðfræði og hafa frelsi til að velja þá braut sem þeim helst hugnast. Nemendur sem eru veikir í algebru lenda frekar í harki og erfiðleikum og gætu endað á því að mála sig út í horn.

Menntaskólinn í Reykjavík býður upp á námskeið til að styrkja grunn í algebru. Námið verður að mestu leyti fjarnám og fer fram dagana 4. - 14.ágúst. Nemendur hafa aðgang að upptökum með útskýringum ásamt sýnidæmum. Námið felst í að reikna nokkurn fjölda dæma á hverjum degi.

 

Tveir reynslumiklir stærðfræðikennarar sjá um kennsluna og verða virkir á fjarkennslukerfi meðan á námskeiðinu stendur. Nemendur fá því hér gott tækifæri til að bæta algebruþekkingu sína og styrkja þar með til muna möguleika sína á árangursríku námi í framhaldsskóla.