Menntaskólinn í Reykjavík

Skólinn fyrr og nú

Menntaskólinn í Reykjavík á rætur að rekja til biskupsstólsins í Skálholti sem stofnaður var árið 1056. Skólinn var fluttur til Reykjavíkur árið 1786 í hús á Hólavelli ofan Suðurgötu. Húsakynnin reyndust þar léleg og skólinn fékk inni á Bessastöðum árið 1805. Hann var starfræktur þar uns nýtt skólahús hafði verið reist í Reykjavík. Það var stærsta hús á landinu og þangað var skólinn fluttur haustið 1846. Hann nefndist Reykjavíkur lærði skóli, en var einnig kallaður Reykjavíkurskóli (Scholae Reykjavicensis á latínu), Lærði skólinn eða Latínuskólinn.

Fram yfir aldamótin 1900 var mikil áhersla lögð á að kenna fornmálin, latínu og grísku, enda má segja að vagga vestrænnar menningar hafi verið í Grikklandi og latína hafi um aldir verið heimsmál.

Árið 1904 tók gildi ný reglugerð fyrir skólann. Kennslustundum í latínu fækkaði, og grískukennslu var hætt til að rýma fyrir nýju námsefni. Þá nefndist skólinn Hinn almenni Menntaskóli í Reykjavík. Allir nemendur skólans lærðu sama námsefni fram til ársins 1919 þegar stærðfræðideild var stofnuð.

Skólinn hefur heitið Menntaskólinn í Reykjavík frá árinu 1937. Skólinn hefur ávallt kappkostað að gera nemendur sína sem hæfasta til að stunda háskólanám og veitt þeim haldgóða menntun sem nýtist þeim hvert sem leið þeirra liggur að loknu stúdentsprófi. Svo að vel megi takast þurfa skólinn og nemendur hans jafnan að gera til sín miklar kröfur og setja markið hátt.