Menntaskólinn í Reykjavík

Málabraut:

Iveta Ivanova er í máladeild í 6.A

 

 Ég ákvað að fara i í MR þegar ég var sex ára eftir að hafa horft á lið Menntaskólans rúlla upp Gettu Betur. Ég á tiltölulega auðvelt með flest fög og því ákvað ég að velja út frá áhugasviði og fór á málabraut. Þegar ég var búin með fyrsta árið velti ég því fyrir mér hvort ég hefði nokkuð gert mistök og hvort það hefði verið sniðugra að fara á náttúrufræðideild. Hins vegar áttaði ég mig á því stuttu eftir að ég byrjaði annað árið, þá á fornmálabraut, að þetta hafi verið besta ákvörðun lífs míns. Að vera á málabraut er allt öðruvísi en fólk heldur. Kennurunum finnst oft mun skemmtilegra að kenna málabrautarnemendunum sem lífgar upp á kennsluna. Námið er mun meira krefjandi en orðstír þess gefur til kynna, þá sérstaklega latína, málvísindi og enska. Þetta eru allt fög sem nýtast manni alveg einstaklega mikið, líka latínan, ég lofa! Þú lærir ritgerðaskrif, samskiptafærni og þjálfar hugann en góð tungumálafærni og málfar fleytir manni einstaklega langt í samfélagi þar sem útgeislun og sambönd skipta höfuðmáli til þess að ná árangri á hvaða sviði sem er. Það að þú lokir ekki dyrum heldur opnir þær lýsir sér vel í mínum áætlunum. Ég ætla í háskóla í Danmörku en ég stefni á að fara í Interaction design (gagnvirk hönnun) sem er tölvunarfræði með áherslu á samband vöru og neytenda. Það nám veitir manni BSc gráðu og ég uppfylli öll skilyrði til að komast inn, af því að ég er á málabraut. Ég tel mig einnig mjög vel undirbúna því að námið fer fram á dönsku og ensku en eftir að hafa lagt stund á fjölda tungumála og rýnt í málsögu og grunn málanna virðist sú áskorun tiltölulega auðveld viðfangs. Eftir það ætla ég að læra verkefnastjórnun.