Menntaskólinn í Reykjavík

Áhugasviðskannanir

Áhugasviðskannanir

Áhugasviðskannanirnar LSS og STRONG & Skills Confidence Inventory

Grunnhugmyndin að baki  beggja kannana LSS og Strong er að einstaklingar verði ánægðari og duglegri í starfi sem fellur vel að áhugasviði þeirra og að þeim líði betur vinni þeir með fólki með svipuð áhugamál.

Nemendur geta tekið tvenns konar áhugasviðskannanir hjá náms-og starfsráðgjöfum MR, þ.e. LSS (Leitaðu sjálfur að starfi) og STRONG & Skills Confidence Inventory (Sjálfsmat á leikni og hæfileikum). LSS geta nemendur tekið á fyrsta og öðru ári. STRONG/SCI er frekar ætluð nemendum sem eru orðnir 18 ára. Nemendur geta tekið hana á þriðja eða fjórða ári séu þeir þá ekki enn ákveðnir um náms- og starfsval. STRONG/SCI er send utan skólans til greiningar og nemendur fá ítarlega skýrslu með niðurstöðum. STRONG kostar nemendur 8.000 kr. en LSS geta nemendur tekið sér að kostnaðarlausu.

Áhugasviðskönnunin LSS (leitaðu sjálfur af starfi) getur auðveldað nemendum að fá svör við spurningum um náms- og starfsval. Hún mælir áhugasvið einstaklinga og gefur vísbendingu um hvaða nám og störf geti hentað hverjum og einum. Hún byggir á kenningu Dr. Johns Hollands. Holland gerir ráð fyrir sex ólíkum manngerðum að því er varðar störf og að einstaklingur velji sér starfsumhverfi sem samrýmist áhugamálum hans.

 • Raunsæi (REALISTIC)  Sviðið lýsir þeim sem líkar vel að að vinna með höndunum og beita alls kyns verkfærum, tækjum og tólum. Flest líkamleg störf höfða til þeirra auk starfa sem unnin eru utandyra. Þeim líkar að vera í ævintýralegu umhverfi og úti störf og útivist hvers konar höfða gjarnan til þeirra.
 • Fræðimennska (INVESTIGATIVE)  Sviðið lýsir þeim sem hafa gaman af því að leysa vandamál með vísindalegum aðferðum, útreikningum og rannsóknum og beita rökhugsun. Þeir vilja vinna sjálfstætt og í störfum sem krefjast mikillar einbeitingar. Þeir hafa fjölþætt áhugamál og eru gjarnan opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.
 • Listnæmi (ARTISTIC)  Sviðið lýsir þeim sem hafa mestan áhuga á að vinna að sköpun og tjáningu. Þeim finnst oft mikilvægara að tjá tilfinningar sínar en að nota rökhugsun og kjósa gjarnan að vinna sjálfstætt og vera frumlegir. Þessir einstaklingar fara gjarnan óhefðbundnar leiðir í lífinu og eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.
 • Félagsnæmi (SOCIAL)  Sviðið lýsir þeim sem hafa fyrst og fremst áhuga á að vinna við mannleg samskipti. Þeir hafa áhuga á að hjálpa öðrum, leiðbeina eða kenna. Samvinna, skipting ábyrgðar og sveigjanleiki í samskiptum skiptir þá helst máli í starfi. Þeir leggja áherslu á að leysa málin með því að ræða þau út frá tilfinningum og samskiptum við aðra.
 • Framsækni (ENTERPRISING) Sviðið lýsir þeim sem hafa áhuga á að ná fram ákveðnum markmiðum, persónulegum eða efnahagslegum. Þeir vilja vinna með öðrum en hafa mestan áhuga á að stjórna og hafa áhrif. Þeir eru gjarnan í viðskiptum, stjórnmálum og stjórnunarstörfum og vilja vera virkir í athafnalífi. Þeir eru oft tilbúnir til að taka áhættu í starfi og eru miklir keppnismenn.
 • Hagkvæmni (CONVENTIONAL) Sviðið lýsir þeim sem vilja hafa gott skipulag á vinnu sinni. Þeir vilja vinna við skýrt afmörkuð verkefni þar sem hægt er að leita skynsamlegra og hagnýtra lausna á vandamálum. Þeir eru áreiðanlegir, vilja hafa reglu á hlutunum og vinna gjarnan með gögn og skýrslur. Þeir vilja frekar vinna undir stjórn annarra eða þar sem farið er eftir skýrum áætlunum en að stjórna öðrum sjálfir.

 

Áhugakönnun STRONG (Strong Interest Inventory) er elsta og mest rannsakaða áhuga sviðspróf sem til er. Prófið hefur verið endurskoðað á u.þ.b. 10 ára fresti og hefur þá verið aðlagað þeim breytingum sem hafa orðið á náms-og starfsumhverfi. Nýjasta útgáfan kom út árið 2004 og hér á Íslandi haustið 2005. Árið 1996 kom Skills Confidence Inventory (SCI) til sögunnar. Prófið var tengt Strong og gefur viðbótarupplýsingar við náms- og starfsval. SCI mælir sjálfstraust á getu eða leikni og hæfileikum. SCI er ekki hæfni- eða greindarpróf, en metur hve öruggur próftaki er um ýmiss konar leikni og hæfileika sem tengjast námi og starfi. Hversu öruggur próftaki er við að vinna ákveðin verk og læra ákveðið námsefni. Þetta getur verið lokamat á því í hvaða átt próftaki stefnir í námi og starfi. SCI gefur til kynna á hvaða sviði próftaki hefur reynslu og öryggi og á hvaða sviði megi bæta sig.

Áhugakönnun Strong er könnun á áhuga og aðstoðar próftaka við að bera kennsl á áhugasvið sitt og afmarka ýmsa þætti þess. Til dæmis hvernig áhugasvið getur komið að gagni í námi, starfi og tómstundum og í hvaða átt áhugi beinist  varðandi val á námi, starfi og tómstundum. Ennfremur hvernig áhugasvið hans fellur að áhugasviði fólks í hinum ýmsu starfsgreinum.

Niðurstöðurnar eru víðtækar og leiðbeina próftaka við að bera kennsl t.a.m. á eftirfarandi:

 • Störf og starfsumhverfi sem líklegast er að próftaki verði ánægður með.
 • Samstarfsfólk sem próftaki á ýmislegt sameiginlegt með.
 • Námsleiðir sem henta.
 • Hversu líkt/ólíkt áhugasvið próftaka er í samanburði við áhugasvið annarra í hinum ýmsu   störfum.
 • Ýmsa valkosti við val á starfi og tómstundum.
 • Almennt yfirlit yfir áhugasvið próftaka.
 • Starfs-og námsumhverfi sem fellur vel að áhugasviði próftaka.
 • Hvernig áhugasvið lýsir stjórnunar- og samskiptastíl próftaka og hversu vel þér fellur að  taka áhættur.

Náms-og starfsráðgjafi fer yfir niðurstöðurnar með próftaka.

Eigandi prófsins frá árinu 1933 er CPP, Inc. California Bandaríkjunum. © Íslensk þýðing og þýðingarréttur. Dr. Sölvína Konráðs hefur unnið allar íslenskar þýðingar á prófinu og rannsóknir frá árinu 1987.