Menntaskólinn í Reykjavík

Fréttir

Ólafur Oddsson er látinn

Kveðja frá Menntaskólanum í Reykjavík

Ólafur OddssonÓlafur Oddsson hóf kennslu í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970. Hann kenndi íslensku við MR allan sinn starfsferil, sem varð allangur en Ólafur var í rúma fjóra áratugi starfsmaður skólans. Að ósk skólans veitti hann allumfangsmikla aðstoð við félagslíf nemenda, og er þar átt við útgáfumál, ræðukeppni ýmiss konar, bókmenntakynningar, nemendaferðir á söguslóðir Njálu, dansleiki og margt fleira. Í rúma tvo áratugi aðstoðaði Ólafur við stjórnun. Þetta fólst m.a. í eftirliti í tveimur húsum skólans og ráðgjöf í ýmsum erfiðum málum. Í 14 ár sinnti hann prófstjórn í skólanum og var deildarstjóri í íslensku í mörg ár. Á haustmisseri 1996 gegndi hann starfi konrektors. Fjölmörgum aukastörfum sinnti Ólafur utan skólans og flest lutu þau að íslensku málfari. Hann vann um hríð í skrifstofu Alþingis, ýmis störf vann hann fyrir bókaforlög og mörg handrit las hann yfir frá fjölmörgum höfundum. Að ósk Íslenskrar málnefndar vann Ólafur ýmis störf á hennar vegum. Hann var t.a.m. um skeið ráðunautur Orðanefndar rafmagnsverkfræðinga við gerð íðorðasafna og nýyrðasmíð. Auk þess vann hann sem íslenskufræðingur fyrir Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavíkurborg, Landsvirkjun, nokkur ráðuneyti o.fl. Hann flutti á annað hundrað þætti í Ríkisútvarpinu einkum um málfarsleg efni. Allir þættir Ólafs báru vitni um vandvirkni hans og fékk hann lofsamlega dóma um þá. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var m.a. formaður í stjórn Félags kennara við Menntaskólann í Reykjavík og sat um skeið í fulltrúaráði HÍK.

Í kennarastarfi sínu beitti Ólafur sér fyrir töluverðum breytingum á námsefni í íslensku í MR og reyndi þannig að stuðla að farsælli þróun í þeim efnum. Hann samdi allmikið efni sem notað hefur verið í MR og víðar.  Í samstarfi við Braga Halldórsson og Knút Hafsteinsson samdi hann kennslubókina Orminn langa. Síðasta ritið sem Ólafur gaf út nefnist Gott mál en í því eru ábendingar um algengar ritvillur og leiðbeiningar um hvernig setja skal fram efni með skýrum og vönduðum hætti. Þetta uppflettirit er afar gagnlegt og mikið notað.

Ólafur naut mikillar virðingar nemenda og samstarfsmanna sinna á löngum ferli. Öll verkefni leysti hann af stakri nákvæmni og umhyggjusemi. Ég naut ómetanlegrar aðstoðar Ólafs við mörg álitamál. Síðustu starfsár hans við skólann tók hann að sér að lesa yfir skólaskýrslur og undirbúa þær til birtingar. Þar kom glögglega í ljós þolinmæði hans og vandvirkni. Ólafur var góður félagi í hópi samstarfsmanna sinna og oft var glatt á hjalla á góðum samverustundum.

Ólafur var góður vinur minn, einstaklega hjartahlýr og það var ávallt gott að leita ráða hjá honum. Samstarf okkar hefur verið afar farsælt. Ólafur var traustur og mjög samviskusamur.  Hans er hér minnst með virðingu og þakklæti fyrir einkar vel unnin störf. Fyrir hönd starfsfólks og nemenda Menntaskólans í Reykjavík eru eiginkonu hans, dætrum og öðrum vandamönnum færðar innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ólafs Oddssonar.
Yngvi Pétursson.