Menntaskólinn í Reykjavík

Fréttir

Menntaskólanum í Reykjavík slitið í 174. sinn.

Menntaskólanum í Reykjavík var í gær slitið í 174. skiptið. Brautskráning 212 stúdenta var að þessu sinni með óvenjulegu sniði vegna ástandsins sem Covid-19 hefur skapað í samfélaginu. Tvær athafnir voru haldnar og hópum nýstúdenta skipt í tvennt en með því tókst að tryggja að nánustu aðstandendur þeirra gætu verið viðstaddir.

Að venju skemmtu nemendur úr röðum stúdenta gestum með  tónlistaratriðum ásamt því að fulltrúar afmælisstúdenta ávörpuðu gesti; þær Ísold Uggadóttir fyrir hönd 25 stúdenta og Sigríður Hlíðar fyrir hönd 50 ára stúdenta. Ómar Ragnarsson, fulltrúi 60 ára stúdenta kom öllum á óvart og færði fyrir hönd síns árgangs skólanum að gjöf lag og texta sem hann frumflutti með aðstoð stúdenta og gesta í sal.

Fjöldi nemenda hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur en nemendur með ágætiseinkunn voru 28 að þessu sinni. Dúx skólans var Katla Rut Robertsdóttir Kluvers en hún brautskráðist af Náttúrufræðibraut I með einkunnina 9,84. Semidux var Tómas Helgi Harðarson með 9,82 í meðaleinkunn.

Í ávörpum sínum gerði Elísabet Siemsen rektor þennan óvenjulega vetur að umtalsefni og þakkaði nemendum og starfsfólki fyrir þá einurð og útsjónarsemi sem þessir aðilar sýndu eftir að skólanum var breytt í fjarnámsskóla á einni kvöldstund í mars, án þess að það bitnaði á framvindu náms og kennslu.

Þá þakki rektor Helga Ingólfssyni sögukennara fyrir vel unnin störf en hann hverfur nú frá skólanum eftir tæplega fjögurra áratuga starf.