mr.is >> Alþjóðleg samskipti
Alþjóðleg samskipti

Gestir

Á hverjum vetri tekur starfsfólk Menntaskólans í Reykjavík á móti mörgum erlendum gestum. Þeir koma frá ýmsum löndum og í margvíslegum tilgangi. Þar má nefna starfsfólk ráðuneyta menntamála svo og alþingismenn sem vilja kynna sér starfsemi skólans og skólaþróun á Íslandi samanborið við önnur lönd. Enn fremur er tekið á móti háskólakennurum sem hafa óskað eftir að kynna nám í erlendum háskólum fyrir nemendum og kennurum M.R.

Gestakennarar

Nýútskrifaðir kennarar frá ýmsum löndum, svo sem Austurríki, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Spáni og Þýskalandi koma og eru gestakennarar á vegum „Sokrates/ Comenius menntaáætlunar Evrópusambandsins“ og dvelja hér frá þremur og allt að níu mánuðum.

Nemendaskipti

Á hverjum vetri koma hópar nemenda með kennurum sínum sem vilja kynnast jafnöldrum á Íslandi. Síðan endurgjalda hópar nemenda M.R. heimsóknir þessar, búa hjá jafnöldrum á erlendri grund, kynnast tungumáli og menningu viðkomandi lands og vinna ýmis verkefni þar að lútandi. Sumar af þessum ferðum hafa verið styrktar af aðilum eins og Comenius og Nordplus junior og er stuðningur af þessu tagi afar dýrmætur hverri menntastofnun.

Alþjóðleg samskipti sem þessi eru afar mikilvæg. Þau stuðla að meiri víðsýni og skilningi nemenda M.R. á mikilvægi góðrar tungumálakunnáttu og veita innsýn í líf og starf jafnaldra þeirra í öðrum löndum.