mr.is >> Fréttir >> Kynningarfundur með forráðamönnum nýnema
Kynningarfundur með forráðamönnum nýnema
Fimmtudagur, 24. ágúst 2017 22:25

Kynningarfundur með foreldrum og forráðamönnum nýnema var haldinn fimmtudaginn 24. ágúst í Háskólabíói. Fundurinn var afar vel sóttur og mættu tæplega þrjú hundruð manns.

Yngvi Pétursson rektor fjallaði um skólastarfið, Elín María Árnadóttir inspector scholae og Aron Jóhannsson forseti Framtíðarinnar sögðu frá félagslífinu og María Soffía Gottfreðsdóttir formaður Foreldrafélagsins flutti ávarp. Að því loknu tóku umsjónarkennarar á móti forráðamönnum í skólanum og útskýrðu nánar m.a. reglur um skólasókn, einkunnir og próf, námsráðgjöf, Innu, námsnetið og svöruðu fyrirspurnum. Síðan var gestum boðið að ganga um húsnæði skólans.

Rektor kynnti skólastarfið. Í ræðu hans kom m.a. fram að í fyrra hefði verið brotið blað í sögu skólans þegar skólinn innritaði í fyrsta sinn nemendur í nám í nýtt þriggja ára kerfi. Skipulagið byggir á að standa vörð um meginmarkmið skólans nefnilega að undirbúa nemendur undir að takast á við bóklegt háskólanám. Í þessu nýja skipulagi er þannig reynt að leggja áherslu á sérhæfingu brautanna, hugvísindanám á málabraut og raungreinanám á náttúrufræðibraut. Tímasókn er meiri en var í eldra kerfi og nemendum hafi þótt álagið mikið á fyrsta námsárinu. Reynt var að bregðast við því með ýmsu móti en með samstilltu átaki nemenda og starfsfólks skólans hafi þetta tekist mjög vel. Reyndar svo vel að árangur nemenda á fyrsta ári var með því besta sem sést hefur.

Þá sagði rektor frá því að í vor hafi fjölmargir afmælisstúdentar fært skólanum myndarlegar gjafir í framkvæmdasjóð skólans sem er ætlað að styrkja nauðsynleg tækjakaup skólans og til að bæta aðstöðu nemenda til náms. Þess má geta að hjón sem eru stúdentar frá skólanum færðu skólanum 10 milljónir króna til þess að bæta aðstöðu nemenda til náms m.a. til endurnýjunar á skólahúsgögnum og ljósritunarvélum. Hollvinafélag skólans stóð fyrir söfnun meðal fyrirtækja landsins og stúdenta skólans til að bæta tölvubúnað skólans og aðstöðu til náms og hafa styrkt skólann á síðasta skólaári fyrir á annan tug milljóna króna. Myndarlegur stuðningur hjónanna sem óska nafnleyndar, afmælisstúdenta, Foreldrafélagsins og Hollvinafélagsins er skólanum ómetanlegur stuðningur og kærkominn. Í ljósi erfiðs reksturs skólans vegna ónógra fjárveitinga hefur verið leitað allra leiða til að hagræða í rekstri.

Skólastarf hefur verið einkar farsælt á undanförnum árum og brottfall verið lítið en á síðasta skólaári fækkaði nemendum um 6 ef gengið er út frá innritunartölum við upphaf hvors misseris. Í fyrra stóðust 93% nemenda próf og fengu því rétt til að færast upp milli bekkja. Góð aðsókn var að skólanum í vor.

Að lokum ræddi rektor um félagslífið og dansleikjahald. Dansleikir eru haldnir að jafnaði einu sinni í mánuði og eru árshátíðir þar meðtaldar. Á þessa dansleiki mæta m.a. félagsmála- og forvarnafulltrúi til eftirlits fyrir hönd skólans. Aðrir dansleikir eru ekki haldnir á vegum skólans. Rektor ræddi um umdirbúning tolleringa og boð í heimahúsum fyrir dansleiki. Jafnframt bað rektor forráðamenn um að skrá netföng í Innu til að unnt væri að senda forráðamönnum í tölvupósti upplýsingar um ýmis mál. Rektor þakkaði gestum fyrir komuna og vonaðist eftir góðu samstarf i í framtíðinni.

 
Last month Júní 2018 Next month
    S M Þ M F F L
week 22                     1 2
week 23 3 4 5 6 7 8 9
week 24 10 11 12 13 14 15 16
week 25 17 18 19 20 21 22 23
week 26 24 25 26 27 28 29 30