mr.is >> Fréttir >> Skólasetning
Skólasetning
Fimmtudagur, 17. ágúst 2017 15:45

Menntaskólinn í Reykavík var settur í 172. sinn fimmtudaginn 17. ágúst í Dómkirkjunni. Í skólann eru skráðir 853 nemendur í 36 bekkjardeildum, 191 nemandi í 6. bekk, 180 í 5. bekk, 226 í nýjum V. bekk og 256 í nýjum 4. bekk. Við athöfnina söng Kór Menntaskólans í Reykjavík undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur sem leysti af Kára Þormar kórstjóra. Sr. Hjálmar Jónsson tók á móti gestum. Yngvi Pétursson rektor ávarpaði nemendur og kynnti skólastarfið.

Sr. Hjálmari Jónssyni fyrrverandi dómkirkjupresti voru færðar innilegar þakkir fyrir að hafa sýnt skólanum, nemendum hans og starfsfólki mikla tryggð og velvild með því m.a. að taka á móti þeim við skólasetningu og við jólamessu í hátt á annan áratug.

Í sumar kepptu nokkrir nemendur skólans m.a. í Ólympíukeppni í raungreinum, 2 í eðlisfræði, 2 í líffræði og 4 í stærðfræði. Rektor þakkaði þeim nemendum sem tóku þátt í keppni í fyrra og sumar og þeim kennurum sem staðið hafa að undirbúningi við þjálfun og framkvæmd. Nemendur tóku einnig þátt í alþjóðlegum verkefnum sl. vetur m.a. menningarferðum til Barcelona, Berlínar, London og Oxford, Parísar og Rómar og verkefni á vegum Erasmus+ menntaáætlunarinnar. Rektor þakkaði nemendum fyrir það hvað þeir stóðu sig með miklum sóma og kennurum sem stóðu að undirbúningi og skipulagi. Hann vonaðist til að áfram verði unnið að því að efla þennan þátt skólastarfsins.

Rektor sagði frá því að í fyrra hafi nemendur verið innritaðir í fyrsta skipti í nýtt þriggja ára nám. Námið reyndist umfangsmeira en var í eldra kerfi en með samstilltu átaki nemenda og starfsfólks skólans hafi þetta fyrsta ár tekist afar vel. Svo vel tókst til að árangur nemenda á fyrsta ári var með því besta sem verið hefur.

Að lokum hvatti rektor nemendur til að sinna náminu vel, vinna hvert verk af alúð, hlúa að vináttunni og að ganga glöð og bjartsýn, einbeitt og öguð til móts við námið og veturinn sem er framundan.

skolasetning2017

 
Last month Júní 2018 Next month
    S M Þ M F F L
week 22                     1 2
week 23 3 4 5 6 7 8 9
week 24 10 11 12 13 14 15 16
week 25 17 18 19 20 21 22 23
week 26 24 25 26 27 28 29 30