mr.is
fidluball.jpg
Fréttir og tilkynningar
Rektor kveður
Mánudagur, 02. október 2017 17:13

Í dag mánudaginn 2. október læt ég af störfum rektors Menntaskólans í Reykjavík. Ég þakka samstarfsmönnum og nemendum mínum fyrir afar ánægjulegt samstarf á liðnum árum. Sérstaklega færi ég bæði núverandi og fyrrverandi samstarfsmönnum mínum innilegar þakkir fyrir hlýjar kveðjur og góðar gjafir við skólaslit í vor. Einnig þakka ég nemendum þann heiður og virðingu sem þau sýndu mér með glæsilegri kveðjuathöfn sl. föstudag. Ég óska arftaka mínum góðs gengis við að berjast fyrir bættum hag skólans og að tryggja nemendum kost á metnaðarfullu námi. Megi gæfa fylgja starfsfólki og nemendum Menntaskólans í Reykjavík á komandi árum.

Yngvi Pétursson

Síðast uppfært: Mánudagur, 02. október 2017 22:02
 
Minningarorð um Sigurð Pálsson
Mánudagur, 02. október 2017 16:49

Sigurður fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967 og stundaði frönskunám í Toulouse og París. Þá nam hann leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk einnig námi í kvikmyndaleikstjórn.

Ritstörf og þýðingar einkenndu mikið ævistarf hans. Sigurður hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar árið 2007 og forseti Íslands sæmdi hann fálkaorðunni á þessu ári. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2016 og Rithöfundasamband Íslands veitti Sigurði Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Ljóð muna rödd.

Við skólaslit Menntaskólans í Reykjavík vorið 2017 flutti hann eftirminnilega ræðu sem ræðumaður 50 ára stúdenta. Það var sérstakur heiður fyrir viðstadda að fá að hlýða á ræðu hans. Hann lagði út frá Dylan, tímanum, byggingalist og tíðarandanum fyrir 50 árum þegar samstúdentar hans útskrifuðust úr skólanum. Hann ræddi um Gamla skóla og rifjaði upp þegar Herranótt flutti leikrit hans á 140 ára afmæli skólans, Húsið á hæðinni eða hring eftir hring. Aðalpersónan er húsið og svokallaðir húsandar sem búa þar í veggjunum en síðari hluti titilsins, hring eftir hring, vísar til þess að það var eins og kynslóð fram af kynslóð væri með svipuð mál ofarlega á baugi. Hann ræddi um mikilvægi þess að fá að dvelja í húsi sem ætti sér jafn langa sögu og Menntaskólinn. Mér þótti sérstaklega eftirminnilegt hvernig hann lagði út frá dvöl nemenda í Gamla skóla: „Aðgangur að fortíðinni getur verið og á að vera stökkpallur inn í framtíðina. Sá sem hefur lifandi aðgang að fortíðinni er betur til þess fallinn að ráða við framtíðina.“

Blessuð sé minning Sigurðar Pálssonar. Nemendur og starfsfólk Menntaskólans í Reykjavík senda syninum Jóhannesi Páli Sigurðarsyni og eiginkonunni Kristínu Jóhannesdóttur innilegar samúðarkveðjur.

Yngvi Pétursson

Síðast uppfært: Þriðjudagur, 03. október 2017 16:57
 
Upphafsfundur ROOTS
Sunnudagur, 01. október 2017 18:26

Nýju Erasmus+ verkefni, ROOTS, var hleypt af stokkunum nú á dögunum þegar kennarar frá fjórum samstarfsskólum sóttu upphafsfund verkefnisins sem haldinn var hér á landi dagana 24.-26. september. Fundurinn var haldinn að Flúðum í Hrunamannahreppi. Viðfangsefni verkefnisins er samtvinnun útivistar, heilbrigðis og vettvangsnáms. Samstarfsskólar eru frá Spáni, Svíþjóð, Slóveníu og Grikklandi. Auk skipulagningar starfsins sem framundan er gafst tækifæri til skoðunarferða. Meðal áfangastaða var Þjórsárdalur þar sem Þjóðveldisbærinn var skoðaður og gengið var að Gjánni þar sem gróðurinn skartaði sínum fegurstu haustlitum.

erasmus

Hópur kennara sem standa að ROOTS verkefninu við Brúarhlöð.

Síðast uppfært: Föstudagur, 06. október 2017 08:24
 
Kveðjuathöfn fyrir Yngva rektor
Föstudagur, 29. september 2017 15:39

Skólafélagið og nemendur stóðu fyrir glæsilegri kveðjuathöfn í hádeginu í dag til heiðurs Yngva Péturssyni rektors sem lætur af starfi rektors mánudaginn 2. október. Við athöfnina söng Skólakórinn undir stjórn Kára Þormar og Elín María Árnadóttir inspector scholae, Katrín Agla Tómasdóttir og Hrólfur Eyjólfsson fluttu ávörp. Rektor þakkaði nemendum hlýhug þeirra og þann heiður sem þau sýndu honum. Að lokum var nemendum og starfsfólki boðið upp á kökur og mjólk.

Kveðjuræða rektors


20 20 20

20

Guðbjartur Kristófersson tók myndirnar sem fylgja þessari frétt.

Hér má finna fleiri myndir af kveðjuathöfninni

Síðast uppfært: Föstudagur, 29. september 2017 17:13
 
«FyrstaFyrri12345678910NæstaSíðasta»

Last month Febrúar 2018 Next month
    S M Þ M F F L
week 5                 1 2 3
week 6 4 5 6 7 8 9 10
week 7 11 12 13 14 15 16 17
week 8 18 19 20 21 22 23 24
week 9 25 26 27 28