mr.is
IMG_8695.JPG
Fréttir og tilkynningar
MR-VÍ dagurinn
Fimmtudagur, 08. október 2015 20:40

Föstudaginn 2.október var haldinn hinn árlegi MR-VÍ dagur en hann er hápunktur á svokallaðri MR-VÍ viku.

MR-ingar söfnuðust saman í skólaportinu og örkuðu í Hljómskólagarðinn til að keppa við nemendur frá Verzlunarskóla Íslands. Í Hljómskólagarðinum var keppt í reipitogi, kappáti, kvæðarappi, dansvígi, róðri yfir Tjörnina og hlaupi. MR sigraði í öllum viðreignum í Hljómskólagarðinum nema reipitogi og dansvígi. Góð stemning var í garðinum. Grillnefnd Versló mætti til að grilla en einnig var boðið upp á ís.

Um kvöldið var haldin ræðukeppni í Verzlunarskólanum þar sem nýskipað ræðulið MR tók þátt. Ræðuliðið skipa

Leifur Þorbjarnarson, liðsstjóri
Elín María Árnadóttir, frummælandi
Ragnheiður Ingunn Jóhannsóttir, meðmælandi og
Sigrún Ebba Urbancic, stuðningsmaður.

MRVI15

Umræðuefnið í ár var tíminn og mæltu MR-ingar með. Keppnin var æsispennandi og sigraði MR með 13 stiga mun. Sigrún Ebba Urbancic var valin ræðumaður kvöldsins. Eiga þau hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu.

Í vikunni kepptu MR-ingar í söfnunarkeppni en í ár var ákveðið að styrkja Elísu Margréti. Elísa Margrét er tveggja ára stúlka sem fæddist með alvarlegan heilasjúkdóm. MR-ingar stóðu sig vel og söfnuðu 200 þúsund krónum. Var heildarsöfnunin hjá skólunum báðum 574.000 krónur. Fulltrúar skólanna afhentu foreldrum Elísu Margréti söfnunarféð á styrktartónleikum sem voru haldnir 6.október.

Síðast uppfært: Föstudagur, 09. október 2015 09:43
 
Aðalfundur Foreldrafélagsins
Fimmtudagur, 08. október 2015 09:10

Aðalfundur Foreldrafélags Menntaskólans í Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 20. október á Hátíðasal kl. 20.00.

Samkvæmt samþykktum er dagskrá sem hér segir:
a. Kosning fundarstjóra og fundarritara
b. Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins
c. Umræða um skýrslu stjórnar
(d. Breytingar á samþykktum félagsins)
e. Starfsáætlun lögð fram til kynningar og afgreiðslu
f. Stjórnarkjör

Kaffihlé

Að venju er boðið uppá fræðsluerindi að aðalfundarstörum loknum.  Að þessu sinni halda Margrét Birna Þórarinsdóttir og Hrund Þrándardóttir sálfræðingar hjá Stofunni - sálfræðiþjónustu erindið:
"Kvíði barna og unglinga, hvað er til ráða?"

Stjórn Foreldrafélags Menntaskólans í Reykjavík

 
Alþjóðlegt samstarfsverkefni um vatn
Föstudagur, 25. september 2015 12:34

Menntaskólinn í Reykjavík hlaut í fyrra styrk frá Erasmus+ menntaáætluninni til þátttöku í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem ber heitið: Water, a European task in a Global context. Inda Gymnasium í Aachen í Þýskalandi leiðir verkefnið en aðrir samstarfsskólar eru frá Búlgaríu, Grikklandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni og Tyrklandi. Verkefnið miðar að því að auka þekkingu nemenda á vatni, eiginleikum þess, hringrás, uppsprettum, mikilvægi vatns sem auðlindar og að gera þá meðvitaðri um fjölbreytni vatnsnotkunar í heiminum.

Í fyrra voru haldnir tveir fundir erlendis á vegum verkefnisins. Fyrsti fundur var í Aachen í Þýskalandi og annar fundur í Torino á Ítalíu.

Dagana 24.-29. september er Menntaskólinn í Reykjavík gestgjafi. Um helgina vinna nemendur að verkefnum í Menntaskólaselinu í Reykjakoti. Nemendum verður skipt upp í hópa þar sem hver hópur vinnur að ákveðnu verkefni undir stjórn kennara á vegum skólans. Afrakstur þessarar vinnu verður síðan kynntur á Hátíðasal skólans næstkomandi þriðjudag.

Fyrir hönd skólans er Jóhanna Arnórsdóttir umsjónarmaður verkefnisins og hefur hún haft veg og vanda að öllum undirbúningi. Allmargir kennarar og nemendur taka einnig þátt í þessu verkefni og er þeim öllum færðar innilegar þakkir fyrir og Jóhönnu færðar sérstakar alúðarþakkir fyrir frábært starf.

Næsti fundur verður í Varna í Búlgaríu í nóvember.

erasmusplus-project

Síðast uppfært: Föstudagur, 25. september 2015 12:36
 
Sinfóníutónleikar
Föstudagur, 18. september 2015 11:45

Nemendum og starfsfólki skólans var boðið föstudaginn 18. september á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsalnum.

Á dagskrá var píanókonsert eftir Mozart nr. 23, K. 488. Einleikari var píanóleikarinn Robert Levin og hljómsveitarstjóri var Matthew Halls. Hjördís Ástráðsdóttir fræðslustjóri Sinfonínuhljómsveitar Íslands bauð okkur velkomin og Robert Levin kynnti verkið og sagði frá tónskáldinu W.A. Mozart. Robert Levin er einn mesti tónhugsuður okkar tíma og hefur vakið athygli um allan heim fyrir innblásinn og úthugsaðan flutning sinn. Hann er ekki hvað síst frægur fyrir túlkun sína á tónlist klassíska skeiðsins og hefur hlotið ótal verðlaun fyrir flutning sinn á verkum Mozarts. Nemendur nutu góðrar leiðsagnar hans sem var afar fróðleg og kunnu nemendur vel að meta hana.

Allir nemendur skólans ásamt kennurum sínum sóttu tónleikana. Nemendur voru til fyrirmyndar og skemmtu sér afar vel. Við þökkum Sinfoníuhljómsveit Íslands og öllum sem stóðu að tónleikunum fyrir skemmtilega tónleika.

Síðast uppfært: Þriðjudagur, 22. september 2015 09:07
 
«FyrstaFyrri12345678910NæstaSíðasta»

Last month Október 2015 Next month
    S M Þ M F F L
week 40                 1 2 3
week 41 4 5 6 7 8 9 10
week 42 11 12 13 14 15 16 17
week 43 18 19 20 21 22 23 24
week 44 25 26 27 28 29 30 31